Lög félagsins

Lög Hlutverks – Samtaka um vinnu og verkþjálfun.

Nafn og tilgangur.

1. gr

Nafn samtakanna er:

Hlutverk – Samtök um vinnu og verkþjálfun.

Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr

Tilgangur samtakanna er:

a)   að stuðla að góðu samstarfi og samskiptum fyrirtækja og stofnana innan sambandsins.

b)   að gæta hagsmuna sambandsaðila.

c)   að stuðla að samvinnu við önnur fyrirtæki, stofnanir, félög og félagasambönd, innanlands og utan, í upplýsinga- og fræðsluskyni varðandi atvinnumál fatlaðs fólks og annarra sem þurfa á stuðningi að halda.

d)   að vera ráðgefandi stofnunum ríkis og sveitarfélaga, þar með talin ráðuneyti og annarra þeirra sem sjá um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðs fólks.

e)   að stuðla að samstarfi um uppbyggingu á starfsþjálfun, hæfingu og endurhæfingu fyrir einstaklinga til starfa á vinnumarkaði.

Sambandsaðild.

3. gr.

Aðilar að sambandinu geta þau fyrirtæki og stofnanir orðið, sem er ætlað að hæfa og styðja fatlað fólk og aðra í því að nýta vinnugetu sína og færni. Þeir þurfa að  hafa hlotið samþykki opinberra aðila fyrir starfsemi sinni.

4. gr.

Umsókn um sambandsaðild skal vera skrifleg og staðfest af aðalfundi samtakanna. Stjórn samtakanna getur þó veitt þeim, sem óska aðildar að sambandinu, rétt til þátttöku í starfsemi þess til næsta aðalfundar.

5. gr.

Úrsögn úr samtökunum skal vera formleg og gerð með þriggja mánaða fyrirvara fyrir lok reikningsárs sambandsins.

Aðalfundur, haustfundir.

6. gr.

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum samtakanna.

7. gr.

Aðalfund skal halda árlega fyrir lok maí. Til hans skal boðað með þriggja vikna fyrirvara. Stjórn samtakanna ákveður fundarstað og dagsetningu.

8. gr.

Haustfund Hlutverks – Samtaka um vinnu og verkþjálfun skal boða á sama hátt og með sama fyrirvara og aðalfund. Stjórn samtakanna boðar til fundanna. Haustfund skal halda eigi síðar en 15. nóvember ár hvert. Þar skal kjósa kjörnefnd sem gerir tillögu að uppstillingu til stjórnar fyrir næsta aðalfund, sbr. liði h), i) og j) í 9. grein. Í kjörnefnd skal skipa 3 aðila, aðra en stjórnarmenn. Kjörnefnd skal stuðla að sem dreifðastri aðkomu aðila að stjórn og eðlilegri endurnýjun stjórnarmanna.

Skylt er stjórn sambandsins að boða til aukafundar ef 1/3 sambandsaðila óskar þess með skriflegri beiðni til stjórnar. Í fundarboði til aukafundar skal tilgreina fundarefni.

9. gr.

Á dagskrá aðalfundar skal jafnan taka eftirtalin atriði:

a)            Kosning fundarstjóra og ritara.

b)            Skýrsla stjórnar fyrir síðasta starfsár.

c)            Framlagning og samþykkt endurskoðaðra reikninga.

d)            Staðfesting aðildarskrár og samþykkt nýrra aðila að samtökunum.

e)            Framlagning erinda sem óskað er eftir að aðalfundur fjalli um.

f)             Lagabreytingar

g)            Tillögur kjörnefndar 

h)            Kosning formanns.

i)             Kosning sex stjórnarmanna.

j)             Kosning tveggja félagslegra skoðunarmanna.

k)            Ákvörðun um árgjald.

l)             Önnur mál.

10. gr.

Sérhver aðili að samtökunum fer með eitt atkvæði á aðalfundi eða aukafundi í samtökunum. Á fundum í samtökunum ræður einfaldur meirihluti atkvæða afgreiðslu mála, sbr. þó ákvæði 14. og 15. gr. Löglega boðaður fundur hefur óskoraðan rétt til afgreiðslu mála enda séu 5 stjórnarmenn auk 4 annarra sambandsaðila viðstaddir.

Stjórn.

11. gr

Stjórn samtakanna er skipuð 7 mönnum, formanni, ritara, gjaldkera og fjórum meðstjórnendum. Ritari tekur sæti formanns í fjarveru hans. Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum samtakanna á milli aðalfunda.

Fjárhagur.

12. gr.

Reikningsár samtakanna er almanaksárið. Endurskoðaða reikninga samtakanna ber að leggja fram og fjalla um á stjórnarfundi áður en þeir eru bornir upp á aðalfundi til samþykktar.

13. gr.

Til að standa straum af kostnaði við rekstur samtakanna skulu sambandsaðilar greiða árgjald. Stjórn samtakanna gerir tillögu um árgjald er taki mið af stærð og umsvifum aðila að samtökunum (starfsmannafjölda og rekstrarumfangi) og leggur fyrir aðalfund til samþykktar.

Lagabreytingar.

14. gr.

Lögum þessum má breyta á aðalfundi eða sérstaklega boðuðum fundi til lagabreytinga, enda sé meira en helmingur aðila að samtökunum viðstaddur og 2/3 hlutar þeirra gjaldi slíkum breytingum atkvæði sitt.

Sambandsslit.

15. gr.

Komi fram vilji meirihluta sambandsaðila um að leggja samtökin niður, skal stjórn félagsins tilnefna tvo skilanefndarmenn, er leggi fram tillögur um sambandsslit á fundi, sem boða skal til svo sem um aðalfund sé að ræða. Tillaga er lýtur að sambandsslitum þarf að njóta stuðnings 2/3 atkvæða löglega boðaðra og viðstaddra fundarmanna.

Samþykkt á aðalfundi Hlutverks 23. – 24. maí 2013