Örvi starfsþjálfun

Kársnesbraut 110, 200 Kópavogur
441 9860
Heimasíða: Örvi
Facebook: Örvi

Starfsemi Örva er tvíþætt. Annars vegar fer fram hæfing og þjálfun einstaklinga með skerta starfsgetu sem hefur það að markmiði að gera viðkomandi hæfari til starfa á almennum vinnumarkaði. Hins vegar er Örvi fyrirtæki í umtalsverðum rekstri. Framleiðsla plastumbúða og ýmis önnur verkefni fyrir viðskiptavini (pökkun, flokkun og samsetningar) er grundvöllurinn sem starfsþjálfunin hvílir á.

Þjónusta við einstaklinga með skerta vinnugetu

Reynslan hefur sýnt að starfshæfing og starfsþjálfun í Örva er mjög góður kostur fyrir þá sem skortir starfsreynslu eða erfitt eiga með að fóta sig á almennum vinnumarkaði. Með fram þjálfun í Örva stendur til boða aðstoð ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun við atvinnuleit.

Starfshæfing

Allir sem koma í Örva byrja á því að fara í átta vikna ólaunaða starfshæfingu. Markmið hennar er að meta heildstætt möguleika hvers einstaklings til vinnu. Fylgst er með starfsgetu viðkomandi í fjölbreyttum verkefnum og mat lagt á kunnáttu, verkfærni, áhuga, snyrtimennsku og félagslega hæfni. Gerðar eru kröfur líkt og á almennum vinnustöðum og gilda almennt sömu reglur í Örva og á almennum vinnumarkaði. Að starfshæfingu lokinni er framkvæmt mat á vinnugetu til ákvörðunar launa og tekin ákvörðun um framhaldið.

Starfsþjálfun

Starfsþjálfun tekur við af starfshæfingu. Í starfsþjálfuninni í Örva er aðaláherslan lögð á rétt vinnubrögð, góðar starfsvenjur, aukið starfsþrek og félagsleg samskipti. Unnið er samkvæmt einstaklingsmiðuðum markmiðum. Lengd starfsþjálfunar er sniðin að þörfum hvers einstaklings. Þó er miðað við að starfsþjálfun standi að öllu jöfnu ekki lengur en 18 mánuði. Hægt er að lengja starfsþjálfunina sé þess þörf. Einnig hefur áhrif hvernig gengur að finna atvinnu á almennum vinnumarkaði og tekur þjálfunartími einstaklinganna því gjarnan mið af því hversu vel það gengur.

Framleiðsla og þjónusta

Örvi sinnir fjölbreyttri framleiðslu og einsetur sér að veita góða og vandaða þjónustu. Grundvöllur árangurs Örva, hvað varðar þjálfun einstaklinga með skerta vinnugetu til virkrar atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði, eru næg og fjölbreytileg verkefni og framleiðsla fyrir viðskiptavini.

Starfsemi Örva fyrir viðskiptavini má skipta í tvö meginsvið:

Plastiðja: Framleiddar eru í Örva ýmiss konar plastumbúðir, t.d. botnar í konfektkassa, öskjur, plastlok og bakkar fyrir matvæli, sælgæti, smávörur og fleira.

Pökkunar- og samsetningarþjónusta: Boðið er upp á alhliða pökkunar- og samsetningarþjónustu. Ýmist er pakkað er með vélum eða höndum, t.d. tímaritum, skrúfum og margs konar smávöru. Einnig eru límdar íslenskar leiðbeiningar á smásöluvöru s.s. hreinlætisvörur og matvælaumbúðir, herðatré eru flokkuð fyrir stórmarkaði og spilum o.fl. pakkað í plastfilmu.

Hafa samband:
Forstöðumaður: Birgitta Bóasdóttir birgittabo@kopavogur.is
Verkstjórar: vinnusalurorvi@kopavogur.is
Starfsráðgjafar: ragnheidurgud@kopavogur.is og maria@kopavogur.is
Skrifstofa: marthajor@kopavogur.is