Skógarlundur, miðstöð virkni og hæfingar Akureyri

Skógarlundur 1, 600 Akureyri
462 1754

Ragnheiður Júlíusdóttir, forstöðumaður / þroskaþjálfi  raggajul@akureyri.is

Í Skógarlundi er einstaklingum með langvarandi stuðningsþarfir boðin einstaklingsmiðuð þjónusta í formi virkni og hæfingar. Skógarlundur heyrir undir Velferðarsvið Akureyrarbæjar. Unnið er samkvæmt lögum um málefni fatlaðra, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og  unnið samkvæmt hugmyndafræði og nálgunar Þjónandi leiðsagnar og Valdeflingar.

Skógarlundur er opinn frá 08.00 – 16.00 virka daga og boðið er upp á hálfs dags þjónustu, annað hvort fyrir eða eftir hádegi. Í Skógarlundi er boðið upp á þroska – iðju –  og starfsþjálfun. Stuðst er m.a. við hugmyndafræði TEACCH og mikilvægi óhefðbundinna tjáskiptaleiða. Um 45 einstaklingar koma í Skógarlund á hverjum degi og markmiðið að bjóða upp á virkni og hæfingu fyrir alla, félagsskap, tilbreytingu og aukin lífsgæði.

Í Skógarlundi eru níu starfsstöðvar og allir sem koma í þjónustu vinna á tveimur  starfsstöðvum á dag. Þessi fjölbreytnin eykur virkni og allir vinna á öllum starfsstöðvum.  Starfsstöðvarnar eru: Skapandi starf, vinnuþjálfun, gagnaeyðing, smíðar og handverk og tölvur og rofar. Einnig er boðið upp á  skynörvun, hreyfingu og tjáskipti.

Daglegt skipulag í Skógarlundi er sett upp með myndrænum hætti fyrir alla sem þurfa. Það sýnir athafnir dagsins og í hvaða röð þær eru. Verkefnin á starfsstöðvunum eru fjölbreytt og þjónustan breytileg eftir þörfum og óskum þeirra einstaklinga sem verið er að þjónusta. Þjónustan getur verið að veita minniháttar aðstoð eða leiðbeiningar við þau verkefni sem verið er að vinna að hverju sinni, en einnig getur þjónustan falið í sér að aðstoða mikið fatlaða einstaklinga við allar athafnir daglegs lífs og finna leiðir til að einstaklingurinn geti verið virkur þátttakandi.

Í Skógarlundi eru alls 16 stöðugildi, virðing og hjálpsemi er það sem við viljum standa fyrir.

Ef einhverra upplýsinga er óskað þá endilega hafið samband.