Iðja – hæfing á Sauðárkróki

Aðalgata 21
550 Sauðárkrókur
453 6853

idja@skagafjordur.is

Heimasíða: Upplýsingar má finna um staðinn á síðu sveitarfélags Skagafjarðar.

Iðja-Hæfing á Sauðárkróki er dagþjónusta sem veitir fötluðu fólki létt vinnuverkefni, hæfingu, þjálfun, umönnun og afþreyingu sem fötlunar sinnar vegna þarf sérhæfða og einstaklingsmiðaða þjónustu. Þjónustunotendur eru fatlað fólk sem eru eldri en 18 ára. Notendur eru 13 á aldrinum 22-61 árs. Iðja-Hæfing starfar samkvæmt lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992 og reglugerð nr. 376/1996 um atvinnumál fatlaðra. Iðja-Hæfing heyrir undir Fjölskyldu- og félagsþjónustu Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Markmið/leiðarljós:
Að gefa fötluðu fólki kost á að sækja dagþjónustu við hæfi utan heimilis.
Að efla möguleika fatlaðs fólks til að þróa hæfileika sína sem leiðir til virkrar þátttöku í eigin lífi og þar með samfélaginu.
Að búa fatlað fólk undir starf á almennum vinnumarkaði.
Að taka við nemendum af starfsbraut FNV ef ekki finnst fyrir þá vinna úti á almennum vinnumarkaði.

Undirmarkmið:
Að efla alhliða þroska og sjálfstæði einstaklingsins.
Að viðhalda hæfni og auka þá færni sem einstaklingurinn hefur náð.
Að efla frumkvæði og koma á móts við sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins eins og kostur er.
Að einstaklingurinn njóti augnabliksins, upplifi tilhlökkun, vellíða og öryggi.

Með þjálfun og hæfingu er markmiðið að draga úr áhrifum fötlunar og færni hins fatlaða til að taka þátt í daglegu lífi aukin. Það gerum við m.a. með vinnuþjálfun, afþreyingu, skapandi verkefnum, athöfnum daglegs lífs (ADL), líkams/hreyfiþjálfun, skynörvun, málörvun, vitrænni þjálfun og félagsmótun.

Á Alþjóðadegi fatlaðra 3.desember ár hvert er Opið hús. Þá eru til sölu verk sem framleidd eru af notendum Iðju-Hæfingar, boðið upp á kaffi, jólate og smákökur sem notendur baka fyrir aðventu. Lifandi tónlist er á staðnum og jafnvel tekin dansspor.

Í Sæluviku Skagfirðinga er haldin sölusýning í Landsbankanum á verkum sem framleidd eru af notendum.

Farin er vorferð til dæmis í sveit eða söfn til fræðslu og skemmtunar.

Vöfflukaffi er einu sinni í mánuði.

Notendafundur er einu sinni í mánuði og margt margt fleira gert til gagns og gamans.

Starfssemi Iðju-Hæfingar fer að mestu fram í húsnæði dagþjónustunnar Aðaltötu 21 en einnig utan þess, til dæmis í Reiðhöllinni Svaðastaðir, vinnustöðum og endurhæfingarlaug Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróks.

Hafa samband: idja@skagafjordur.is